Starfsáætlun og ársskýrslur
Yfirlit yfir störf Loftslagsráðs
Hér má kynna sér ársskýrslur Loftslagsráðs frá fyrri árum. Starfsárið hefst í ágúst og því lýkur í júni.
Starfsáætlun 2021-2022
Inngangur
Loftslagsráð er sjálfstætt starfandi ráð, skipað fulltrúum hagaðila, umhverfisverndarsamtaka, neytenda, sveitastjórna og háskólasamfélagsins. Hlutverk þess er að veita stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum á Íslandi, sem og að hafa yfirsýn yfir fræðslu og miðlun upplýsinga um loftslagsmál til almennings.
Loftslagsráð sækir umboð sitt til laga um loftslagsmál (nr. 70/2012), eftir að þeim var breytt árið 2019, og sinnir verkefnum í anda þeirra laga. Markmið laganna er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, stuðla að aðlögun að afleiðingum loftslagsbreytinga og skapa skilyrði fyrir stjórnvöld til þess að standa við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.
Loftslagsráð sinnir hlutverki sínu með því að:
- Rýna stefnu og áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál
- Stuðla að upplýstri umræðu um markmið og leiðir
- Veita ráðgjöf um aðlögun að loftslagsbreytingum
- Standa fyrir og stuðla að upplýsingamiðlun og fræðslu um loftslagstengd málefni
Loftslagsráð er mikilvægur vettvangur fyrir hagaðila til að koma ábendingum og hugmyndum á framfæri við stjórnvöld. Ráðið er einnig samræðuvettvangur þar sem fulltrúar ólíkra sjónarmiða leita samstöðu um grundvallaratriði og sameiginlega hagsmuni.
Loftslagsráð skal gæta óhlutdrægni og vera sjálfstætt í störfum sínum. Ráðið leggur áherslu á að tengja saman reynsluheima, vera hvati að markvissara samtali um markmið og leiðir í loftslagsmálum og að virkja bakland fulltrúa í ráðinu. Ráðið tekur mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í umfjöllun sinni um loftslagsmál og hefur samráð við Stjórnarráðið og stofnanir þess.
Starfsár Loftslagsráðs hefst í ágúst.
Áherslur Loftslagsráðs 2021-2022
Upplýst umræða, aðgengi að áreiðanlegum og auðskildum upplýsingum og tenging við alþjóðlega strauma er forsenda árangurs í loftslagsmálum. Stjórnvöld, atvinnulíf og þjóðin öll þarf að hafa góðan skilning á og upplýsingar um þá áhættu sem loftslagsváin skapar og leiðir til að auka viðnámsþrótt með aðlögun.
Þörf er á meiri metnaði sem kallar á endurskoðun á stefnu Íslands í loftslagsmálum. Næsta skref Íslands er að útfæra í megindráttum framtíðarsýn um kolefnishlutlaust Ísland og kynna hana og þróunaráætlun um hvernig hún getur orðið að veruleika á vettvangi Parísarsamningsins fyrir COP26 sem haldið verður 2021.
Styrkja þarf þekkingargrunn í ákvörðunum og stefnumótun í loftslagsmálum. Setja þarf meiri kraft í aðlögunaráætlanir og takast á við ógnir s.s. hækkun sjávarborðs og súrnun sjávar.
Vandamálið er hnattrænt og Ísland getur verið hluti af lausninni á heimsvísu með hreinni orku, tækni og nýsköpun.
Loftslagsráð vill veita sterkara aðhald, vera beittara í þrýstingi á stjórnvöld og kalla fulltrúa stjórnvalda fyrir ráðið til að heyra þeirra sýn og krefja þá svara um m.a. vænt áhrif aðgerða í loftslagsmálum.Loftslagsráð mun tala skýrt, vera afdráttarlaust í málflutningi sínum, tala um framtíðina, lausnir og jákvæða þýðingu fyrir samfélagið. Lögð verður áhersla á heildarsamhengið, ekki bara gagnvart Íslandi. Markmiðið er að auka skilning, þekkingu og staðfestu almennings í loftslagsmálum.
Markmiðið er að auka vitund um alvarleika málsins en líka miðla bjartsýni með upplýsingum um hvaða leiðir eru færar til að ná árangri. Loftslagsráð vill stuðla að auknu samstarfi og samstöðu um að ráðast þurfi í árangursríkar aðgerðir og eiga samstarf við gerendur og hagaðila, ríki, sveitarfélög vísindasamfélagið, atvinnulífið og almenning.
Loftslagsráð rýnir helstu áætlanir í rekstri ríkisins reglulega og beitir sér fyrir auknu gagnsæi gagnvart markmiðum, aðgerðum og væntum áhrifum þeirra, þ.á.m. velferðartengdum áhrifum. Einnig mun ráðið beita sér fyrir auknu gagnsæi á hvernig hagrænum stjórntækjum er beitt og fjalla um hagræna hvata og réttlát umskipti.
Loftslagsráð mun fjalla um neysludrifið kolefnisspor, merkingar á kolefnisspor á vörum, mataræði og matarspor.
Ráðið stendur vörð um skýrleika, hlutlægni, trúverðugleika, sjálfstæði og gagnsæi. Með verkum sínum skal ráðið stuðla að virkri umræðu um stefnu stjórnvalda og aðgerðir í loftslagsmálum. Ráðið leggur mat á áhrif af starfi sínu a.m.k. í lok hvers starfsárs.
Viðfangsefni 2021-2022
1. Framtíð óháð jarðeldsneyti
2. Fjármálaáætlun og beiting stjórntækja í hagkerfinu
3. Kolefnishlutleysi og árangur aðgerða stjórnvalda
4. Landnotkun og losun frá landi
5. Millilandasamgöngur (Samtal og sókn)
6. Aðlögun að röskun loftslags
7. Þekking í þágu loftslagsmála
1. Framtíð óháð jarðefnaeldsneyti
Umheimurinn er á fullri ferð út úr jarðeldsneytishagkerfinu. Hagræn greining Alþjóða orkumálastofnunarinnar (IEA) á nauðsynlegum umskiptum í orkukerfinu vegna 1,5°C þaksins sýnir að þau eru raunhæf og hagkvæm. Fyrir liggur orkustefnu og aðgerðaáætlun sem Loftslagsráð hefur fjallað um.
Markmið:
Loftslagsráð raði sér í framvarðasveit í umskiptum í orkukerfinu með réttlæti að leiðarljósi.
Setja kastljósið á tækifæri og áskoranir fyrir íslenskt efnahagslíf í orkuskiptum.
Leiðir:
Bjóða aðilum innan stjórnsýslunnar og sérfræðingum, m.a. Orkumálastjóra til fundar.
Þrýsta á um að gerð verði sviðsmyndagreining og útfösunarspá.
Varpa ljósi á hvernig aðrar þjóðir eru að nálgast verkefnið.
2. Fjármálaáætlun og beiting stjórntækja í hagkerfinu
Nýleg úttekt OECD um efnahag Íslands (7. júlí sl.) skapar „beggja skauta byr“ fyrir málflutning Loftslagsráðs um mikilvægi kolefnishagstjórnar.
Starfshópur um skatta og skattaívilnanir á sviði umhverfismála hefur kafað ofan í kolefnishagstjórnina og skilar niðurstöðum fyrir árslok.
Seðlabankinn er að undirbúa heildstæða aðkomu.
Markmið:
Hagrænum stjórntækjum verði beitt í auknum mæli bæði sem hvatar og latar.
Leiðir:
Rýna tillögur OECD og stuðla að því að þær fái athygli og stuðli að upplýstri umræðu.
Bjóða sérfróðum aðilum bæði frá hinu opinbera og úr raunhagkerfinu til fundar við ráðið.
Tryggja upplýsta umræðu og viðbrögð við IPCC WGIII í mars.
3. Kolefnishlutleysi og árangur aðgerða stjórnvalda
Skilningur og meðvitund hefur aukist um hvað kolefnishlutleysi felur í sér og hvers vegna það skiptir máli. Reiknilíkan hefur verið þróað til að greina sviðsmyndir.
Með lögleiðingu markmiðs um kolefnishlutleysi 2040 á markmiðið nú stoð í lögum en ekki einungis í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar.
Enn liggur ekki fyrir hvað íslensk stjórnvöld munu kynna á alþjóðavettvangi í aðdraganda COP26 um langtímastefnu Íslands til 2050.
Markmið:
Að víkka sjónarhornið og samtvinna betur aðkomu löggjafans og framkvæmdavaldsins og aðra ákvarðanatöku þannig að úr verði heildstæð loftslagsstefna Íslands.
Öll löggjöf og stefnumörkun stjórnvalda þarf að taka mið af loftslagsmálum svo velferð og hagsæld verði tryggð til framtíðar. Auka þarf gagnsæi og skýra hvernig tekjur af hagrænum stjórntækjum svo sem kolefnisgjöldum og grænum sköttum skila sér til aðgerða í loftslagsmálum og að gjaldtakan verði ekki varanleg.
Tryggja þarf fjármagn til nauðsynlegra aðgerða, en frekara fjármagn þarf til til að viðunandi árangur náist.
Leiðir:
Vinna greiningar á stöðunni og halda viðburði undir heitinu Samtal og sókn um aðgerðir í loftslagsmálum.
4. Landnotkun og losun frá landi
Losun gróðurhúsalofttegunda frá landnotkun er meiri en frá nokkrum öðrum flokki í losunarbókhaldi Íslands.
Mikil upplýsingaóreyða ríkir og álitamál varðandi bókhaldið óleyst.
Miklir hagsmunir takast hér á og því mikið í húfi fyrir Loftslagsráð.
Fyrir liggja lokadrög að greinargerð VSÓ um stöðu rannsókna og vöktunar á losun frá landi. Umfjöllun um hana í ráðinu er ólokið og var formanni falið að undirbúa lokaafgreiðslu eftir samráð við sérfróðra aðila um losunarbókhald.
Markmið:
Stuðla að upplýstri umræðu og samstöðu um aðgerðir sem þjóna almannahagsmunum.
Leiðir:
Gefa út samantekt um stöðu rannsókna og vöktunar á losun frá landi.
Ná samstöðu innan ráðsins og kynna þá sýn eftir kosningar og stjórnarmyndun.
5. Samtal og sókn í loftslagsmálum
Loftslagsráð ætlar að halda áfram að standa fyrir samtali um mikilvæg málefni og sóknarfæri sem stuðla að auknum metnaði í markmiðssetningu og loftslagsvænum fjárfestingum.
Þegar Samtal og sókn beindi kastljósinu að tækifærum til að minnka kolefnisspor ferðaþjónustu og sjávarútvegs ákvað Loftslagsráð að einskorða umræðuna við innanlandslosun og taka milliríkjasamgöngur fyrir næst með heildstæðum hætti.
Millilandasamgöngur falla ekki undir skuldbindingar ríkja undir UNFCCC en aðgerðir eru samræmdar innan ICAO og IMO.
Þörf er á kerfislægum umskiptum á framleiðslu- og atvinnuháttum til að efla viðnámsþrótt samfélagsins og auka verðmætasköpun í kolefnishlutlausu hagkerfi framtíðarinnar sem og til að aðlagast loftslagsbreytingum. Til að ryðja brautina fyrir slík umskipti, og skapa sátt um nauðsynlegar aðgerðir, þurfa umskiptin að vera réttlát á þann hátt að þeim tækifærum og byrðum sem felast í umskiptum og aðgerðum þeim tengdum, sé dreift með réttlátum og sanngjörnum hætti.
Markmið:
Auka meðvitund um Carbon Offsetting and Reduction Scheme for International Aviation (CORSIA) á vegum ICAO og aðgerðir (eða aðgerðaleysi) IMO.
Halda samgöngufyrirtækjum með rekstur hér á landi við efnið.
Auka meðvitund um mikilvægi réttlætis í kerfislægum umskiptum og áhrifum á vinnumarkað, atvinnuhætti, afkomuöryggi, velferð og jöfnuð.
Leiðir:
Hefja vinnu við greiningu/samantekt um millilandasamgöngur sem leggur grunn að umræðu í ráðinu, hugsanlegum ályktunum og Samtal og sókn viðburði í janúar 2022.
Taka saman efni um reynslu annarra þjóða af réttlátum umskiptum, um stefnumótun og aðgerðir til að stuðla að jöfnuði. Halda viðburð í febrúar 2022.
6. Aðlögun að röskun loftslags
Loftslagsráð hélt málþing um aðlögun á vordögum 2019 og gaf út „Að búa sig undir breyttan heim“ í ársbyrjun 2020 sem hefur að geyma tillögur til stjórnvalda.
Ráðherra skipaði starfshóp í desember 2020 sem ætlað var að vinna tillögu að aðlögunarstefnu og var hún gefin út í september 2021.
Markmið:
Beina kastljósinu að afleiðingum loftslagsbreytinga og þeim fjárfestingum sem ráðast þarf í til aðlögunar (þar sem slíkt er mögulegt).
Leiðir:
Leggja mat á stöðu mála m.a. með því að bjóða formanni starfshóps og skrifstofustjóra Skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofunni að upplýsa ráðið.
Tryggja upplýsta umræðu og viðbrögð við niðurstöðu IPCC WGII í febrúar.
7. Þekking í þágu loftslagsmála
Í nýlegri samantekt Loftslagsráðs og Stofnunar Sæmundarfróða, Þekking í þágu loftslagsmála , eru settar fram sjö ályktanir um hvað megi gera til að efla vísindaráðgjöf í loftslagsmálum, þ.m.t. þvert á fræðasvið. Með samstilltu átaki er hægt að koma fyrirliggjandi þekkingu í farveg til að efla málaflokkinn, en á sama tíma leggja grunn að því að efla mannauð til framtíðar, bæta samvinnu og skýra farvegi fyrir þekkingu sem byggist á rannsóknum og greiningum. verði kynnt og nýtt til að leggja grunn að sókn í átt að þverfræðilegri og öflugri vísindaráðgjöf um loftslagsmál.
Markmið:
Stíga mikilvæg skref á þessu starfsári og því næsta sem breyta stöðunni hér á landi varðandi beitingu fagþekkingar í loftslagsmálum.
Skýra farvegi, hlutverk og ábyrgð sem og fjármögnun rannsókna og eftirlits.
Varpa ljósi á mikilvægi félags- og hugvísinda og samþætta við önnur fagsvið enda eru loftslagsmálin þess eðlis að auka þarf verulega samþættingu og samvinnu í málaflokknum þvert á fagsvið.
Leiðir:
Kallaðir verða saman nokkrir hópar viðmælenda til að ræða hvernig raungera mætti hugmyndir sem koma fram í samantektinni. Einnig er stefnt að því að halda stærra málþing.
Fulltrúar í Loftslagsráði
Í Loftslagsráði sitja 15 manns, fulltrúar atvinnulífsins, háskólasamfélagsins, sveitarfélaga, neytendasamtaka og umhverfisverndarsamtaka auk annarra fulltrúa sem nauðsynlegt er talið að eigi sæti í ráðinu á hverjum tíma. Ráðherra skipar auk þess formann og varaformann Loftslagsráðs, auk fulltrúa unga fólksins.
Fundargerðir
Loftslagsráð fundar reglulega og fjallar um áherslumál og verkefni, birtir álit og greinargerðir. Fundargerðir birtar opinberlega og eru aðgengilegar á vefnum.