Hoppa yfir valmynd

51. fundur Loftslagsráðs 24. mars 2022

Fundargerð

Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Árni Finnsson, Hildur Hauksdóttir, Hrönn Hrafnsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Steingrímur Jónsson, Guðmundur Þorbjörnsson, Aðalheiður Snæbjarnardóttir og Helga Ögmundardóttir varamaður. 

Gestir fundarins voru: undir lið 2 var Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur sem átti sæti í starfshóp sem skipaður var til að fara yfir stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum í ljósi markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum. Gestir fundarins undir lið 4 voru Hrafnhildur Bragadóttir, lögfræðingur og Jónas Atli Gunnarsson hagfræðingur.  

Fundurinn var haldinn í Skuggasundi 3 kl. 14-16.10. Guðný Káradóttir verkefnastjóri skráði fundargerð.

1. Fundargerð síðasta fundar 

Engar athugasemdir bárust fyrir þennan fund við fundargerð 50. Fundar, sem haldinn var þann 3. mars sl., og skoðast hún því samþykkt.

2. Kynning á skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum

Í byrjun ársins skipaði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra starfshóp til að fara yfir stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum með vísan til áherslna og markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum. Hópurinn skilaði nýlega af sér skýrslu innan þröngra tímamarka og kynnti Ari Trausti Guðmundsson tilgang og eðli vinnunnar og efnistökin í skýrslunni. Lagði hann áherslu á að hér væri um umræðuplagg að ræða sem hefði þann tilgang að upplýsa umræðu um þau fjölmörgu álitamál og ákvörðunarefni sem tilgreind eru. Einnig undirstrikaði hann að starfshópurinn hefði ekki gert greinarmun á þeim sex sviðmyndum sem kynntar eru til sögunnar og bornar saman. 

Fulltrúar í Loftslagsráði þökkuðu góða kynningu og ræddu efni skýrslunnar við Ara Trausta.

3. Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir

Mikilvægur þáttur í loftslagshagstjórn hér á landi er þátttaka Íslands í sameiginlegu viðskiptakerfi ESB og EES ríkjanna með losunarheimildir (ETS). Fyrir fundinum lá minnisblað Hrafnhildar Bragadóttur til Loftslagsráðs um tekjur af uppboði losunarheimilda.  Á fundinum kynnti hún efni minnisblaðsins, stöðuna í ETS kerfinu og þær breytingar sem eru í farvatninu m.a. helstu reglur um uppboð losunarheimilda í viðskiptakerfi ESB, kröfur ESB varðandi ráðstöfun uppboðstekna og væntanlegar breytingar á viðskiptakerfinu sem fjallað er um í „Fit for 55“ pakka ESB. 

4. Samtal og sókn um millilandasamgöngur

Þann 14. mars var streymt frá viðburði Loftslagsráðs, Samtal og sókn í millilandasamgöngum og er upptaka af samtalinu aðgengileg á vef Loftslagsráðs. Rætt var um lærdóm af viðburðinum, það sem þar kom fram og hvort Loftslagsráði muni beita sér frekar á þessu sviði. Niðurstaðan var sú að aðhafast ekki frekar á yfirstandandi starfsári. 

5. Önnur mál

Formaður gerði grein fyrir því að samkomulag hefur náðst milli ráðuneytisins að Umhverfistofnunar um vinnuaðstöðu fyrir skrifstofu Loftslagsráðs í höfuðstöðvum stofnunarinnar að Suðulandsbraut 24, sem fram til þessa hefur verið í Þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins, Skuggasundi 3. Þetta samkomulag, sem taka mun gildi  1. apríl nk., mun engin áhrif hafa á sjálfstæði ráðsins. 

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies) til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Nánar