Hoppa yfir valmynd

35. fundur Loftslagsráðs 17. mars 2021

Fulltrúar sem sátu fundinn: Halldór Þorgeirsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Ragnhildur Freysteinsdóttir, Auður Alfa Ólafsdóttir, Sigurður Loftur Thorlacius, Hildur Hauksdóttir, Jóhanna Harpa Árnadóttir, Árni Finnsson, Steingrímur Jónsson, Sveinn Margeirsson, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, Unnsteinn Snorri Snorrason, Sævar Helgi Bragason og varafulltrúinn Páll Björgvin Guðmundsson fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga. 

Gestir ráðsins: Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Hugi Ólafsson skrifstofustjóri og Sigríður Halldórsdóttir aðstoðamaður ráðherra (liður 2). 

Fundurinn var haldinn í Skuggasundi 3 kl. 10-12. Guðný Káradóttir verkefnisstjóri skráði fundargerð. 

1. Fundargerð síðasta fundar   

Fundargerð síðasta fundar þann 24. febrúar 2021 var samþykkt.  

2. Landsframlag Íslands (NDC) 

Umhverfis- og auðlindaráðherra var boðið á fundinn til þess að gera grein fyrir landsframlagi sem sent var skrifstofu Parísarsamningsins 18. febrúar 2021. Jafnframt lágu fyrir fundinum tvö skjöl, landsframlag Íslands eins og það var sent inn og greining skrifstofu samningsins á samanlögðum áhrifum þeirra landsframlaga sem borist höfðu innan tímamarka við lok árs 2020.

Eftir kynningu ráðherra voru fyrirspurnir til ráðherra og umræður. Fram kom m.a. að ekki liggur fyrir hvernig framlag Íslands í samfloti með Noregi og Evrópusambandinu um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda verður reiknað. 

Landsframlagið verður sett aftur á dagskrá ráðsins í apríl og rætt um frekari viðbrögð. 

3. Ábyrg kolefnisjöfnun 

Sagt var frá vinnustofu Staðlaráðs og Loftslagsráðs um ábyrga kolefnisjöfnun, því sem fram fór á fyrstu tveimur fundunum sem haldnir voru 25. febrúar og 4. mars, sem og undirbúningi síðasta fundar vinnustofunnar sem verður haldinn 18. mars. Fyrir fundinum lágu samantektir af fyrri fundum og frásögn af verkefninu á vef Loftslagsráðs. Þeir meðlimir í ráðinu sem taka þátt í vinnustofunni sögðu frá sinni reynslu. Umræður, m.a. um mikilvægi þess að hugtök séu skýr. Hugmynd kom fram um að Loftslagsráð beiti sér fyrir fræðslu um ábyrga kolefnisjöfnun og samþykkt að fela verkefnisstjóra að skoða hugsanlega útfærslu þeirrar hugmyndar. 

Málið verður sett aftur á dagskrá ráðsins þegar vinnustofusamþykkt liggur fyrir. 

4. Aðgerðaáætlun orkustefnu 

Fyrir fundinum lá skjal sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra lagði fram á Alþingi í febrúar; orkustefna og aðgerðaáætlun orkustefnu. Einnig tillaga formanns og varaformanns að viðbrögðum ráðsins við aðgerðaáætluninni.

Umræður um tillöguna. Samþykkt að taka á móti skriflegum tillögum um breytingar á orðalagi næstu sjö dagana og meta viðbrögðin þegar þær liggja fyrir. 

5. Önnur mál

 Sagt var frá undirbúningi viðburðar um ferðaþjónustu undir merkjum Samtals og sóknar í loftslagsmálum sem er áætlaður 13. apríl nk. Einnig sagt stuttlega frá viðburði um sjávarútveg sem áætlað er að halda í byrjun júní. 

Þá var sagt frá fyrirkomulagi við opinn fund Loftslagsráðs sem haldinn verður 24.mars kl. 15 þar sem fulltrúi danska loftslagsráðsins segir frá starfi ráðsins og samspili við ferlið í ákvarðanatöku og stefnumörkun í loftslagsmálum þar í landi. Einnig var sagt frá fyrirhuguðum fundi formanns og varaformanns ráðsins með kollegum sínum hjá danska ráðinu 7. apríl nk.

Formaður greindi frá erindi sem hann hélt á samráðsfundi 25. febrúar um tillögu Evrópuþingsins um stofnun evrópsks loftslagsráðs (European Climate Change Council).

Auður Alfa Ólafsdóttir greindi frá opnum veffundi sem ASÍ, BHM og BSRB halda um réttlát umskipti í umhverfismálum 18. mars. 

 

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies) til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Nánar