Hoppa yfir valmynd

Fróðleikur um loftslagsmál

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru hnattrænn vandi. Öll losun gróðurhúsalofttegunda, hvar sem hún er á jarðarkringlunni, leiðir til aukins styrks koldísoxíðs í andrúmsloftinu. Aukinn styrkur koldíoxíðs leiðir til hækkunar hitastigs og sú hækkun getur haft áhrif með ólíkum hætti á veðurfar og náttúrufar eftir því hvar í heiminum við erum staðsett. 

Þetta þýðir að upprunastaður losunar skiptir ekki máli. Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi hefur jafnmikil áhrif á loftslag í Afríku og í Evrópu. Sama má segja um losun sem á uppruna sinn í öðrum ríkjum. En þó að losun á hverjum stað hafi áhrif alls staðar í heiminum þá eru birtingarmyndir ólíkar á mismunandi stöðum. Áhrif loftslagsbreytinga á hverjum stað ræðst bæði af þeim breytingum sem verða á veðurfari og náttúrufari á viðkomandi svæði og þeim innviðum sem eru til staðar sem geta mildað neikvæð áhrif breytinga á náttúru og samfélag.

Í stórum dráttum má segja að meirihluti losunar eigi uppruna sinn í iðnvæddum ríkjum, þar sem orkunotkun er meiri, en að afleiðingarnar verði hvað alvarlegastar í fátækari ríkjum, sem hafa veika innviði. Með öðrum orðum, þeir sem bera mesta ábyrgð finna minnst fyrir breytingunum á eigin skinni.

Með þetta í huga er ljóst að Ísland, sem iðnríki með sterkum innviðum, ber ríka ábyrgð á að draga úr losun. Að sama skapi er vandinn þess eðlis að aðgerðir eins ríkis, ekki síst örríkis eins og Íslands, mega sín lítils nema þær séu hluti af stærra samhengi. Alþjóðasamvinna skiptir því sköpun og mikilvægt að Ísland leggi sitt af mörkum í því víðtæka alþjóðlega samstarfi sem á sér stað á sviði loftslagsmála.

 

 

Alþjóðasamvinna

Eitt fyrsta skrefið í alþjóðlegri samvinnu um loftslagsmál var stofnun IPCC (e. Intergovernmental Panel on Climate Change), eða Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Nefndin var sett á laggirnar árið 1988 og hefur það hlutverk að yfirfara, meta og draga saman alla þá vísindalegu þekkingu sem til er um loftslagsbreytingar.

Lesa meira...

Hugtök tengd loftslagsmálum

ETS, ESR, LULUCF, IPCC, UNFCCC, kolefnishlutleysi, kolefnisjöfnun, loftslagsvá, aðlögun, mótvægisaðgerðir, o.s.frv. Allt eru þetta hugtök sem notuð eru í umræðunni um loftslagsmál. Hér er að finna skýringar á þeim og fleiri hugtökum sem gagnlegt er að þekkja. 

 

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies) til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Nánar